föstudagurinn 14. desember 2018

Síđustu dagar fyrir jólafrí

Þá styttist í jólafrí og all flestir orðnir spenntir. Í morgun var foreldrakaffi á leikskólanum, þar sem börnin sungu, dönsuðu og spiluðu á hljóðfæri fyrir foreldra og starfsmenn. Afskaplega fallegt og allir stóðu sig einstaklega vel, þá buðu þau okkur upp á skreyttar piparkökur og kaffi, tær snilld hjá þessum elskum.

Á morgun laugardaginn 15.desember, verða jólatónleikar tónlistardeildarinnar á sal skólans klukkan 14:00, að þeim loknum eru nemendur tónlistardeildarinnar komnir í jólafrí.

Á mánudaginn er starfsdagur í grunnskóladeildinni og á þriðjudeginum eru foreldraviðtöl, samkvæmt tímatöflu. Seinni partinn er síðan hið árlega Jólagrín, þar sem nemendur troða upp með leik og söng fyrir alla viðstadda.

Á miðvikudaginn 19.des eru Litlu jólin, þá mæta grunnskólabörn klukkan 10:00, með gos, nammi og gjöf. Að þeim loknum eru allir nemendur grunnskólans komnir í jólafrí. Starfsmenn borða saman hádegismat saman, lesa jólkort og skiptast á gjöfum, að því loknu eru starfsmenn grunn- og tónlistardeildar komnir í jólafrí. Leikskólinn fer í jólafrí á föstudeginum 21.des.

Súðavíkurskóli tekur til starfa aftur eftir jólafrí, föstudaginn 4.janúar 2019. Nemendur leikskólans mæta klukkan 8:00 en nemendur grunnskólans mæta klukkan 9:00.

Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með kæru þakklæti fyrir árið sem er að líða.

 

Starfsmenn Súðavíkurskóla

Fleiri fréttir

Vefumsjón