Vorferðalag
Þann 30. maí var farið í vorferð inn í Reykjanes með alla nemendur grunnskólans. Þessi sundferð að vori er nánast árlegur viðburður í skólastarfinu og alltaf mjög vinsæl. Þó það hellirigndi í Súðavík var þurrt í Reykjanesinu og hægur vindur fram að hádegi, en það bætti í vindinn u.þ.b. þegar börnin voru að tygja sig til heimferðar.
Í þetta sinn borðuðum við morgunverð á Hótel Reykjanesi, egg, beikon, rjómavöfflur, brauð og allskonar álegg (meira að segja súkkulaðismurningur). Á eftir var farið í laugina og þar undu börnin sér sæl og ánægð þar til haldið var heimleiðis með viðkomu á Litlabæ í Skötufirði. Þar báru Sigga og Kristján fram heitt súkkulaði og rjómavöfflur. Heim komum við um kl. 14:30 södd og þreytt eftir ljómandi góðan dag.