föstudagurinn 14. desember 2018

Síđustu dagar fyrir jólafrí

Þá styttist í jólafrí og all flestir orðnir spenntir. Í morgun var foreldrakaffi á leikskólanum, þar sem börnin sungu, dönsuðu og spiluðu á hljóðfæri fyrir foreldra og starfsmenn. Afskaplega fallegt og allir stóðu sig einstaklega vel, þá buðu þau okkur upp á skreyttar piparkökur og kaffi, tær snilld hjá þessum elskum.

Á morgun laugardaginn 15.desember, verða jólatónleikar tónlistardeildarinnar á sal skólans klukkan 14:00, að þeim loknum eru nemendur tónlistardeildarinnar komnir í jólafrí.

Á mánudaginn er starfsdagur í grunnskóladeildinni og á þriðjudeginum eru foreldraviðtöl, samkvæmt tímatöflu. Seinni partinn er síðan hið árlega Jólagrín, þar sem nemendur troða upp með leik og söng fyrir alla viðstadda.

Á miðvikudaginn 19.des eru Litlu jólin, þá mæta grunnskólabörn klukkan 10:00, með gos, nammi og gjöf. Að þeim loknum eru allir nemendur grunnskólans komnir í jólafrí. Starfsmenn borða saman hádegismat saman, lesa jólkort og skiptast á gjöfum, að því loknu eru starfsmenn grunn- og tónlistardeildar komnir í jólafrí. Leikskólinn fer í jólafrí á föstudeginum 21.des.

Súðavíkurskóli tekur til starfa aftur eftir jólafrí, föstudaginn 4.janúar 2019. Nemendur leikskólans mæta klukkan 8:00 en nemendur grunnskólans mæta klukkan 9:00.

Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með kæru þakklæti fyrir árið sem er að líða.

 

Starfsmenn Súðavíkurskóla

miđvikudagurinn 12. september 2018

Námsefniskynningar

Skólahaldið hefur farið vel af stað, við erum búin að gróðursetja plöntur upp í skólaskógi fyrir ofan þorpið okkar kæra og kíkja á skólagarðana okkar á Melunum. Þar er komið að því að taka upp kartöflur og sér hver fjölskylda um að taka upp úr sínum garði, hvert hólf er merkt nafni eða nöfnum nemenda.

Námsefniskynningar eru að byrja og er sú fyrsta fyrir foreldra barna í miðdeild í dag klukkan 16:15. Miðvikudaginn 18.sept verður námsefniskynning fyrir foreldra yngstu deildar klukkan 16:15 og að lokum er námsefniskynnig fyrir unglingastigið fimmtudaginn 19.sept klukkan 16:15

Vonum að allir foreldrar geti mætt á þessar kynningar, það er mjög gagnlegt fyrir alla

 

Kveðja Skólastjóri

mánudagurinn 13. ágúst 2018

Skólasetning Súđavíkurskóla

 

Skólasetning Súðavíkurskóla verður á sal skólans, þriðjudaginn 21.ágúst nk, klukkan 16:00

Allir hjartanlega velkomnir

 

Skólastjóri

Fleiri fréttir

Vefumsjón