föstudagurinn 24. febrúar 2017

Naglarnir sigra

Harðsnúið lið Súðavíkurskóla
Harðsnúið lið Súðavíkurskóla

Lið starfsfólks Súðavíkurskóla vann í sínum riðli í Lífshlaupinu og ekki í fyrsta sinn. Liðið Naglarnir var skipað harðsnúinni sveit kvenna sem þrælaðist upp um fjöll og út um allar koppagrundir til að ná þessu markmiði. Að auki var stunduð líkamsrækt þrisvar í viku auk jóga. Oft hefur þorrablót Súðvíkinga lent á sama tíma og Lífshlaupið og þá hafa starfsmenn ekki vikið að dansgólfinu til að fá sem mest út úr hreyfingunni. Í þetta sinn er Góugleði í Súðavíkinni og því þurftu starfsmenn að vera duglegir að finna upp á hreyfingu í staðinn fyrir ballið góða. Því lengdust göngutúrar og önnur útivist - enda ekki amarlegt að ganga í veðurblíðunni sem verið hefur upp á síðkastið. Til hamingju starfsfólk.

fimmtudagurinn 16. febrúar 2017

Sigur í Lífshlaupinu

Enn á ný sigrar Súðavíkurskóli í Lífshlaupinu sem er árviss keppni í hreyfingu meðal skóla og fyrirtækja. Nemendur tóku áskoruninni af fullri alvöru og notuðu hverja lausa stund til útileikja, gönguferða og íþróttaiðkana. Allra leiða var leitað til að gera hreyfinguna sem skemmtilegasta með hlaupaleikjum og keppnum. Við í Súðavíkurskóla lítum á Lífshlaupið sem ákjósanlega aðferð til að koma hreyfingunni í gang eftir dimmustu daga vetrarins, enda leggjum við mikla áherslu á hreyfingu og hollustu allt skólaárið. Þrjá morgna í viku fara allir í eltingaleik áður en kennsla hefst og hina tvo morgnana syngjum við saman á sal. Til hamingju Súðavíkurskóli með verðskuldaðan sigur.

miðvikudagurinn 1. febrúar 2017

Hvalreki

1 af 2

Í dag 1. febrúar byrjar Lífshlaupið sem er keppni í hreyfingu barna og fullorðinna. Súðavíkurskóli hefur alltaf tekið þátt í þessari landskeppni og oftast verið sigursæll í sínum flokki. Kennarar og nemendur hreyfa sig mikið þessa keppnisdaga, fara í gönguferðir og setja auka púður í alla hreyfileiki. Í dag gengu nemendur yngstu deildar fram á dauða hnísu, í fjörunni neðan við skólann, og jóst var að krummi og fleiri fuglar höfðu gert sér gott af krásinni. Börnin reyndu að telja tennur hnísunnar en gáfust upp - þær voru svo margar. Hreyfing gerir öllum gott - bæði börnum og fullorðnum.

Fleiri fréttir

Vefumsjón