þriðjudagurinn 8. nóvember 2016

Brúarsmíð nemenda

Unnið af kappi.
Unnið af kappi.
1 af 4

Það er aldrei dauð stund í Súðavíkurskóla. Í síðustu viku luku nemendur elstu deildar við smíði á forkunnarfagurri brú. Hugmyndin kviknaði þegar nemendur lærðu um sjálfbærni í myndmennt og að sjálfbærni væri ekki eingöngu endurnýting og flokkun sorps. Sjálfbærni er líka að búa í haginn fyrir umhverfi sitt og að læra verklag fyrri kynslóða. Þau ákváðu að brúa illræmdan skurð sem sker landið sunnanvert við þorpið og er hinn versti farartálmi fyrir berjafólk og þá sem heimsækja vilja birkiskóginn sem nemendur eru að rækta. Þau fengi tvo sjómenn í lið með sér ásamt myndmenntakennaranum og notuðu tvo boli af aspartrjám sem fella þurfti í næsta garði. Orkubú Vestfjarða styrkti þau um 40.000 kr. fyrir brúargólfi og umhverfisvænni málningu og Vestfirskir verktakar lögðu til skrúfur í brúna. Með fagurfræði í huga máluðu þau brúna í glaðlegum litum - til að gleðja alla sem um brúna fara.

föstudagurinn 21. október 2016

Leiksýning í Edinborg

1 af 3

Í gær fóru nokkrir nemendur úr leik- og grunnskólanum í leikhúsferð í Edinborgarhúsið á Ísafirði. Þjóðleikhúsið bauð nemendum upp á sýninguna um lofthrædda örninn Örvar. Það er óhætt að segja að nemendur skemmtu sér konunglega. Við þökkum kærlega fyrir frábært framtak.

mánudagurinn 10. október 2016

Litla íþróttahátíðin

Föstudaginn 7. október var nemendum 1. - 7. bekkjar boðið á íþróttahátíð á Þingeyri. Þetta er árlegur viðburður þar sem nemendur fámennu skólanna á norðanverðum Vestfjörðum hittast og eiga saman skemmtilegan dag við óhefðbundna leiki og fjör. Í þetta sinn taldi hópurinn rúmlega 80 börn og eins og nærri má geta var gífurlegt fjör. Áður en brunað var heim fengu allir pizzusneiðar til að seðja hungrið. Þess má geta að Súðavíkurskóli hélt íþróttahátíðina í fyrra sem tókst með ágætum, en skólarnir skiptast á að halda hana.

Fleiri fréttir

Vefumsjón