föstudagurinn 23. janúar 2015

Eigi stjörnum ofar ...

Ljósaröðin við Súðavíkurkirkju
  - Mynd: Þ. Haukur Þorsteinsson
Ljósaröðin við Súðavíkurkirkju - Mynd: Þ. Haukur Þorsteinsson
1 af 2

Miðvikudaginn 21. janúar gaf loks til minningarstundarinnar okkar hér í skólanum, um þá sem létust í snjóflóðinu fyrir 20 árum síðan. Það var hægur andvari og frost þegar við röltum út að kirkjunni og tendruðum friðarljós á kirkjugarðsveggnum. Hver einasta sál í skólanum fékk sitt ljós og það varð glæsileg ljósaröðin í morgunbirtunni, eins og sjá má á myndum ÞHÞ.
Svo sungum við: Eigi stjörnum ofar

 

Eigi stjörnum ofar / á ég þig að finna, / meðal bræðra minna / mín þú leitar, Guð.

 

Nær en blærinn, blómið, / barn á mínum armi, / ást í eigin barmi, / ertu hjá mér, Guð.

 

Hvar sem þrautir þjaka, / þig ég heyri biðja: / Viltu veikan styðja, / vera hjá mér þar?

 

Já, þinn vil ég vera, / vígja þér mitt hjarta, / láta ljós þitt bjarta / leiða, blessa mig.

miðvikudagurinn 14. janúar 2015

Skemmtileg heimsókn

Það er gaman að segja frá því að við fengum góða gesti í heimsókn sl. þriðjudag. Bergljót fréttamaður og Jóhann myndatökumaður hjá RÚV ráku inn nefið í tilefni 20 ára frá snjóflóði. Þau áttu stutt spjall við Birtu Lind, Björn Halldór og Dagbjörtu kennara, sem ætlunin er að birta í fréttatímum á fimmtudag, föstudag og jafnvel fleiri daga í vikulokin. Við vorum mátulega búin að dusta rykið af frægu listaverki, sem unnið var hér í skólanum eftir flóð og hengja upp í matsalnum. VIð þökkum RÚV fyrir komuna. Við stefnum svo að því að leggja friðarljósakross við minnisvarðann á föstudaginn kemur eða þegar veður leyfir. 

þriðjudagurinn 6. janúar 2015

Gleðilegt nýtt söngár

Nú eru hjól skólavinnulífsins farin að snúast á nýju ári og við lítum björtum augum fram veginn.
Starfsfólk skólans hefur einsett sér að þétta raðirnar og vinna sameiginlega að lausnum þeirra mála sem upp koma, sem aldrei fyrr. Ákveðið var á kennarafundi í gær að stofna til samsöngs allra deilda, nemenda og fullorðinna á föstudögum kl. 9:45   Æfingar fyrir samsönginn fara fram í hverri hinna deildanna (yngstu - mið - elstu - leikskóla) hina daga vikunnar. Jóhanna, Ísabella og Dagbjört eru í stýrihópi verkefnisins, svo þeim málum er vel skipað.

Þetta verður bara gaman :-)

 

Fleiri fréttir

Vefumsjón